Aðalfundur RL 2025 fór fram fimmtudaginn 13. mars.
Jóhann Steinar Jóhannsson stjórnarformaður RL og framkvæmdastjóri Stapa lífeyrissjóðs setti fundinn. Sigurbjörn Sigurbjörnsson framkvæmdastjóri SL lífeyrissjóðs var kjörinn fundarstjóri og Indriði Freyr Indriðason var valinn fundarritari. Á fundinn voru mættir fulltrúar yfir 75% hlutafjár í félaginu, flestir á staðnum en sumir voru á fjarfundi. Stjórnarformaður flutti skýrslu stjórnar, síðan kynnti Jón Egilsson framkvæmdastjóri RL ársreikning félagsins fyrir liðið starfsár og fór síðan yfir nokkuð efnismikla kynningu á rekstri félagsins. Eftir það tóku við önnur hefðbundin aðalfundarstörf.
Jóhann Steinar Jóhannsson, Jón L. Árnason framkvæmdastjóri hjá Lífsverk lífeyrissjóði og Skúli Geir Jensson forstöðumaður upplýsingatækni hjá Gildi lífeyrissjóði voru endurkjörnir í stjórn. Í varastjórn voru endurkjörnir Ólafur Kristinn Ólafs framkvæmdastjóri lífeyrissjóðs bænda, Ólafur Sigurðsson framkvæmdastjóri hjá Birtu lífeyrissjóði og Haukur Jónsson framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja.
Mikið hefur áunnist síðustu ár við þróun kerfa RL auk þess sem mikil hagræðing hefur náðst fram í rekstri félagsins. Fjárhagsleg afkoma félagsins er í samræmi við væntingar, þó verð hafi verið lækkuð umtalsvert síðustu misseri og viðskiptavinir hafa verið látnir njóta hagræðingar með almennum afsláttum.
Fundarmenn komu á framfæri þakklæti til stjórnar og starfsmanna félagsins fyrir vel unnin störf síðastliðið ár.