Fréttabréf ágúst 2024

Þjónusta og þjónustugátt

Í Þjónustugátt RL er hægt að stofna almennar þjónustubeiðnir og aðgangsbeiðnir ásamt því að fylgjast með stöðu slíkra beiðna á meðan þær eru í vinnslu. Viðskiptavinir og notendur að kerfum RL hafa því góða yfirsýn yfir þær þjónustubeiðnir sem þeir hafa stofnað. Athugið að skrá þarf netfang og stofna lykilorð þegar farið er inn í þjónustugátt RL í fyrsta skipti. Þjónustugátt er aðgengileg hér: Þjónustugátt RL. Einnig er hægt að stofna beiðnir með því að senda tölvupóst á adstod@rl.is. Þjónusta RL er opin frá kl. 9-16 mánudaga til fimmtudaga og kl. 9-15 föstudaga. Áríðandi málum er hægt að fylgja eftir með símtali í 514 0400.

Notendahópar

Notendahópar eru starfræktir vegna helstu kerfishluta Jóakim. Hlutverk notendahópa er að vera vettvangur hugmynda, umræðu og mótunar verkefna fyrir viðkomandi kerfishluta. Notendahópar eru skipaðir fulltrúum notenda og starfa í umboði verkefnaráðs RL. Fulltrúar í notendahópa eru valdir í samráði við viðskiptavini. Nú eru eftirtaldir hópar starfandi: iðgjaldahópur, lífeyrisgreiðsluhópur, verðbréfahópur, lánahópur og gagnahópur. RL hefur væntingar um gott samstarf við notendahópa á næstunni og er nú þegar búið að boða til næstu funda með þeim.

Vefmál

RL rekur þrjá gamla vefi sem RL tók við frá fyrri rekstraraðila Jóakim kerfisins. Vefirnir sem um ræðir eru Félagavefur, Sjóðfélagavefur og Launagreiðendavefur. Þessir vefir eru úreltir tæknilega og öryggislega. RL hefur því afráðið að afleggja þessa vefi og verður þeim lokað eftir rúmlega eitt ár, eða 1.september 2025. Nánari upplýsingar hafa verið sendar á þá viðskiptavini sem enn eru að nota þessa gömlu vefi.

Lagabreyting vegna íbúðaleigufélaga

Alþingi samþykkti í júní breytingu á lögum um fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða. Breytingin snýr að fjárfestingum lífeyrissjóða í verðbréfum útgefnum af félögum, sem hafa langtímaleigu íbúðarhúsnæðis til einstaklinga að meginstarfsemi. Nú þegar hafa verið gerðar nauðsynlegar breytingar á Jóakim kerfinu til að styðja við þessa lagabreytingu.

Öryggis- og gæðamál

Mikilvægt er fyrir notendur kerfa RL að geta treyst því að öryggis- og gæðamál hjá RL séu í góðu horfi. Frá því RL tók við Jóakim kerfinu þá hefur verið gerð árleg ISAE 3402 úttekt hjá félaginu. Niðurstöður úttekta eru birtar í árlegri skýrslu og hefur RL staðist þessar úttektir með sóma. RL vill gera enn betur og hefur því framkvæmt gloppugreiningu gagnvart ISO 27001 upplýsingaöryggisstaðli. Í kjölfar hennar vinnur RL nú að innleiðingu starfshátta sem gera félaginu kleyft að fara í úttekt gagnvart staðlinum.