Fréttabréf febrúar 2025

Þjónustukönnun

RL hefur látið framkvæma árlega þjónustukönnun síðustu ár til að kanna viðhorf notenda til RL, til þeirrar þjónustu sem RL veitir, til Jóakim kerfisins og ýmissa tengdra þátta. Þessar þjónustukannanir hafa verið gagnlegar við að meta stöðuna á hverjum tíma og meðal annars hefur verið tekið tillit til niðurstaðna úr þeim við stefnumótun hjá félaginu. Í byrjun mars næstkomandi verður ný þjónustukönnun send til notenda, sem eru hvattir til að taka þátt í henni og taka þar með virkan þátt í samfélaginu í kringum Jóakim kerfið.

DORA reglur

Ísland mun á næstunni innleiða svokallaðar DORA reglur fyrir fjármálafyrirtæki. Um Evrópureglur er að ræða sem taka í stuttu máli til öryggis- og tæknimála hjá fjármálafyrirtækjum og birgjum þeirra. RL er mikilvægur tæknibirgi fyrir lífeyrissjóði og fleiri fjármálafyrirtæki og mun vinna að því að tryggja viðeigandi samhæfingu við þessar reglur, varðandi skjölun, verklag, samninga og fleira. RL hefur unnið að málinu með vaxandi þunga í vetur og mun vinna að þessum málum af krafti á næstunni.

Viðmót Jóakim kerfisins

Eins og fram kom í fréttabréfi fyrr í vetur þá hefur RL unnið með Hugsmiðjunni að fyrstu skrefum varðandi endurhönnun á Jóakim viðmótinu. Hafin er útfærsla og forritun á fyrsta áfanganum sem er fyrsta skjámynd kerfisins, valmynd og leiðarkerfi. RL hefur unnið þetta verkefni í samráði við reynda notendur og það verður ánægjulegur áfangi að koma þessum breytingum í notkun.

Nýr launagreiðendavefur

Nýir launagreiðendavefir hafa verið í smíðum í vetur í samstarfsverkefni RL og nokkura lífeyrissjóða. Er þeim ætlað að taka við af gömlum vefjum sem verða lagðir af síðar á árinu. Komið er að prófunum í þessu verkefni og innan skamms mun RL geta boðið þeim viðskiptavinum sem það kjósa að nýta sér þessa lausn. Nánari upplýsingar verða sendar tímanlega á þá aðila sem enn nýta sér gamla launagreiðandavefi.

Straumurinn

Í janúar var tekin í notkun ný tæknileg tenging á milli Tryggingastofnunar og réttindakerfa lífeyrissjóða. Þessi tenging byggist á alþjóðlegri tækni sem kennd er við X-road og hefur fengið nafnið Straumurinn á Íslandi. Tæknin er í vaxandi mæli notuð í rafrænum samskiptum opinberra aðila. RL var þátttakandi í verkefninu fyrir hönd þeirra sjóða sem nota Jóakim kerfið og taka þátt í verkefninu. RL sér um hýsingu og rekstur þess búnaðar sem þarf fyrir örugg samskipti milli Tryggingastofnunar og lífeyrissjóða í kerfinu. Að verkefninu komu Tryggingastofnun, Landssamtök lífeyrissjóða, Reiknistofa lífeyrissjóða, aðrir þróunaraðilar lífeyriskerfa og Stafrænt Ísland.