Fréttabréf júní 2024

Tvö ár frá yfirtöku RL á Jóakim kerfinu

Um næstu mánaðamót verða tvö ár frá því RL tók við þróun, þjónustu og rekstri á Jóakim kerfinu. Rekstur kerfisins hefur gengið vel og mikilvæg skref hafa verið tekin í þróun, auk þess sem öryggismál og hlíting hafa fengið mikla athygli. Mikil hagræðing hefur þegar náðst með yfirtöku RL á Jóakim og hafa viðskiptavinir verið látnir njóta þess með lækkun á verðskrá.

Starfsmenn félagsins hafa allir komið til starfa á síðustu tveimur árum og eru í dag alls tíu talsins, þar af þrír í þjónustu og ráðgjöf en sex í hugbúnaðarþróun og rekstri. Vel hefur tekist til við uppbyggingu þekkingar á tæknilegum innviðum kerfisins og skilningur starfsmanna á eðli rekstrar viðskiptavina okkar hefur verið og verður áfram í sífelldri uppbyggingu. Tveir hugbúnaðarsérfræðingar munu bætast í hópinn í ágúst og mun það styðja við aukna þróunarvinnu hjá félaginu, en stefnt er að því að leggja enn meiri áherslu á þróunarverkefni á næstunni, ekki síst þau sem snúa að notendaviðmóti.

RL hefur á öflugum hópi starfsmanna að skipa sem hlakkar til áframhaldandi góðs samstarfs við viðskiptavini.

Stefnumótun

Samhliða uppbyggingu félagsins hefur verið farið í gegnum stefnumótunarvinnu sem horfir til næstu ára. Framtíðarsýn RL er að standa öðrum framar við að þróa og þjónusta notendavænar tæknilausnir fyrir kjarnastarfsemi lífeyrissjóða. Hlutverk RL er að styðja við kjarnastarfsemi lífeyrissjóða, með því að starfrækja trausta innviði, veita vandaða þjónustu og auka árangur viðskiptavina.

Rekstrarumhverfi endurbætt

Miklar endurbætur hafa átt sér stað á rekstrarumhverfi Jóakim kerfisins. RL hefur unnið að uppsetningu varakerfa í nýju gagnaveri, sem eykur til muna rekstraröryggi. Þá hefur RL gert margvíslegar breytingar sem stuðla almennt að auknu net- og gagnaöryggi. Áfram verður unnið að endurbótum á þessu sviði.

Nýtt notendaviðmót í dreifingu

RL hefur sett upp nýtt þróunarumhverfi með sjálfvirkum þróunarferlum og nútímalegri útgáfustjórnun á hugbúnaði. Óhætt er að segja að um byltingu sé að ræða í því hvernig staðið er að þróun á Jóakim og munu þessar breytingar auðvelda mjög nýþróun í kerfinu. Fyrsta útgáfan af Jóakim, sem gefin er út með þessum hætti, er nú í dreifingu hjá viðskiptavinum og mun henni ljúka í sumar. Stefnt er á tíðari uppfærslur á Jóakim næsta vetur.

Þjónustukönnun

Viðhorfskönnun var lögð fyrir notendur Jóakim kerfisins fyrr á árinu. Spurt var um þjónustuna sem RL veitir, Jóakim kerfið almennt, einstaka kerfishluta og notkun sem og nánara mat á tileknum atriðum. Ánægjulegt er að heildarútkoma er nokkuð betri en í sambærilegri könnun á síðasta ári og er gott að vita að notendum finnst RL vera á réttri leið.