Fréttabréf október 2024

Upplýsingar um nýjungar í Jóakim

Upplýsingar um nýjungar í Jóakim eru birtar í verkliðum undir Nýjungar í Jóakim. Til að tryggja enn betur að notendur fái upplýsingar um nýjungar sem gerðar eru á kerfinu, þá hefur RL nú útbúið sérstaka tölvupóstlista fyrir tilkynningar um nýjungar. Við bendum notendum á að skrá sig á tölvupóstlista fyrir iðgjaldakerfi, lífeyrisgreiðslukerfi, verðbréfakerfi og/eða félaga- og orlofshúsakerfi með því að fara í Stjórnborð í Jóakim og velja viðeigandi póstlista undir flipa Tölvupóstur. Upplýsingar um nýjungar munu áfram birtast undir Nýjungar í Jóakim.

Ytri verkefnasýn fyrir viðskiptavini

Fyrir ári opnaði RL Þjónustugáttina, sem veitir notendum sýn á þjónustubeiðnir sínar. RL vinnur nú að því setja upp sérstaka sýn á þróunarverkefni fyrir stjórnendur viðskiptavina og fulltrúa í notendahópum, sem einnig verður aðgengileg úr Þjónustugáttinni. Fyrsti viðskiptavinurinn er nú í samstarfi við RL að prófa þessa verkefnasýn. RL væntir þess að geta boðið fleirum upp á þennan möguleika innan skamms. Þjónustugáttin er aðgengileg hér: https://www.rl.is/is/thjonusta.

Verkefni LL varðandi skilagreinar

RL tekur virkan þátt í verkefni Landssamtaka lífeyrissjóða varðandi skilagreinar. Verkefnið snýst um endurskoðun og uppfærslu á staðli fyrir skilagreinar og í framhaldinu uppfærslu á þeirri miðlægu lausn sem kerfið byggir á í dag og RL rekur. Verkefnið tengist mjög mörgum hagsmunaaðilum, en gengur vel og er á áætlun.

Vefmál

RL rekur þrjá gamla vefi sem RL tók við frá fyrri rekstraraðila Jóakim kerfisins. Vefirnir sem um ræðir eru Félagavefur, Sjóðfélagavefur og Launagreiðendavefur. Eins og kom fram í síðasta fréttabréfi þá hefur RL afráðið að afleggja þessa vefi og verður þeim lokað 1. september 2025. Nánari upplýsingar hafa verið sendar á þá viðskiptavini sem enn eru að nota þessa gömlu vefi, en mikilvægt er að þeir kynni sér málið.

Endurhönnun á viðmóti Jóakim

Það er ánægjulegt að greina frá því að nú er hafið verkefni í samstarfi við Hugsmiðjuna, sem snýr að því að endurhanna viðmót Jóakim kerfisins. Fyrr á árinu var nýju notendaviðmóti dreift til allra notenda og það gamla var síðan gert óaðgengilegt frá og með 1. september síðastliðnum. Þó útlit hafi ekki breyst mikið í þeirri útgáfu, þá var hún tæknilega ólík og gerir RL nú kleyft að hefja þá vegferð að endurhanna og endurgera viðmótið í áföngum. Fyrsti áfanginn mun snúa að fyrstu skjámynd kerfisins; valmynd og leiðarkerfi. RL nýtur aðstoðar reyndra notenda við þessa vinnu.

Starfsdagur RL

Árlegur haustfundur starfsmanna RL var haldinn nýlega og tókst vel. Tilgangurinn með fundinum var að þjappa hópnum saman og slá tóninn fyrir veturinn. Markmið RL er að ná auknum árangri í virðisaukandi verkefnum sem snúa að viðskiptavinum okkar. Starfsfólk RL hlakkar til að takast á við verkefnin framundan og til áframhaldandi góðs samstarfs við viðskiptavini.