Samningi við Init sagt upp og úttekt gerð á starfsháttum

Reiknistofa lífeyrissjóða (RL) sagði í síðustu viku upp samningi sínum við fyrirtækið Init ehf. sem sér um rekstur og þróun á lífeyris-, iðgjalda- og verðbréfakerfinu Jóakim. Þar sem Jóakim er lykilkerfi í starfi þeirra lífeyrissjóða og stéttarfélaga sem nota kerfið, var við uppsögn samningsins lögð áhersla á áframhaldandi rekstur þess næstu mánuði meðan RL tekur ákvörðun um næstu skref.

Þá hefur verið gengið frá samningi við endurskoðunarfyrirtækið Ernst & Young (EY) um úttekt á starfsháttum Init og RL. Félagið mun taka út framkvæmd og efndir Init á samningi við RL og sölu félagsins á þjónustu til þriðja aðila. Einnig verður framkvæmd RL á samningnum og eftirfylgni tekin til skoðunar. Stefnt er að því að EY skili niðurstöðum fyrir lok júnímánaðar og verða þær birtar opinberlega.

Ennfremur hefur Almar Guðmundsson verið ráðinn framkvæmdastjóri RL og hefur hann þegar hafið störf.

Stjórn Reiknistofu lífeyrissjóða